Í þurrnál er notast við koparplötu og beitta nál. Nálin er notuð til að skrapa myndina beint á koparplötuna. Þegar þessi aðferð er notuð er oft erfitt að gera bogadregnar línur eða hringi þar sem fyrirstaðan í plötunni er nokkur.
Þegar myndin hefur verið skröpuð í plötuna er blekinu nuddað ofan í línurnar. Það verður að passa að nudda alla plötuna þangað til blekið situr bara eftir í línunum. Síðan er platan sett í pressu ásamt pappír og þrykkt.
Albrecht Dürer (1471-1528) var snillingur í gerð mynda með þessari tækni. Honum tókst mjög vel upp með skugga og línur og að búa til mismunandi áferð á myndum sínum.