Pétur Már Pétursson fæddist á Ísafirði 1955. Fyrsta einkasýning hans í Listasafni ASÍ árið 1984 vakti verðskuldaða athygli. Listrýnir Morgunblaðsins, Valtýr Pétursson, skynjaði strax að hér var á ferð listmálari með sjaldgæfa hæfileika. “Hæfileikar þessa pilts eru svo auðsjáanlegir, að það er blindur maður sem ekki hrekkur við. Þarna er spenna og litameðferð sem sjaldan verður vart. Hann hefur þegar náð í bestu verk sín svo áberandi árangri, að ég man vart annað eins hjá svo kornungum manni. Það er sterk tilfinning fyrir lit og formi í þessum verkum og Pétur Már slær á óvenjulega uppbyggingu í flestum mynda sinna. Það er langt síðan mér hefur orðið eins hlýtt til ungs málara og við að skoða þessi verk Péturs Más.”
Hin ljóðrænu abstraktverk Péturs Más eru hlaðin magnþrunginni upplifun þar sem tónlist og heimspekilegir þankar liggja að baki. Pétri Má hefur tekist að skapa sér svo sterkt persónulegt rými í lýriskri abstraktsjón að verulegur fengur er að fá verk hans fram á sjónarsviðið.
Auk einkasýninga í Listhúsi 1991 og í Gerðarsafni 2002 tók Pétur Már reglulega þátt í samsýningum Listmálarafélagsins frá 1985.