Öfugt við olíumálningu er til nokkuð nákvæmt ártal á uppgötvun akrýlmálningar. Akrýl málning var fyrst framleidd um 1880 af Otto Rohm. Um 1950 var búið að þróa akrýl málningu það mikið að hún var framleidd sem sérstök málning fyrir listamenn.
Eiginleikar þessarar tegundar málningar eru sér í lagi þeir að hún þornar mun hraðar en olíumálning. Það er auðvelt að blanda henni við önnur efni og hægt að nota hana t.d. sem lím. Akrýl málning gefur því jafnvel fleiri möguleika á tilraunum í listinni en olían.
Það er hægt að nota ýmis tæki og tól önnur en spaða og pensil við vinnslu verka með akrýl málningu. Popp- listamenn á 6. áratugnum í Bandaríkjunum notuðu akrýl málningu mikið þar sem meira var hægt var að leika sér með hana. Til dæmis er hægt að sprauta henni úr málningarsprautum og nota sópa við að dreifa úr henni. Hægt er að hella, skvetta, blása og bæta öðrum efnivið við hana að vild. Í stað terpentínu sem er notuð við að þynna olíumálninguna er t.a.m. hægt að nýta vatn til þynningar akrýllita.
Sem dæmi um listamenn sem hafa nýtt sér eiginleika akrýllitanna má nefna Jackson Pollock sem skvetti á strigann og lét dropa af penslinum og einnig Mark Rothko sem notaði akrýlliti til að fá vatnslita-effekt á myndirnar sínar þar sem hægt var að þynna litina vel án þessa að þeir misstu eitthvað af styrkleika sínum.
Ýtarefni um akrýlmálningu:
- Grove Art Online, www.groveart.com
- Kleiner, Mamiya og Tansey, 2001, Gardner’s Art through the ages. Harcourt College Publishers, New York.