Ein útgáfa ætingar er svokölluð aquatinta. Við gerð mynda sem eru aquatintur er oftast byrjað á að skrapa myndina í plötuna og láta sýruna éta sig í hana alveg eins og við gerð ætingar. Þegar því ferli lýkur er platan sett inn í sérstakan kassa og ‘resin’-dufti spreyjað inn í hann þannig að það falli jafnt á plötuna. Resin er einskonar trjákvoða. Þegar duftið hefur sest er platan tekin varlega út og hituð þannig að resinið bráðni og bindist plötunni. Þessu næst er platan sett í sýru sem étur sig niður á milli kornanna á plötunni. Myndin sem kemur fram í aquatintu hefur jafnan gráan en kornóttan lit.
Einn frægasti listamaður Spánverja á 19. öld, Francisco Goya gerði margar aquatintur. Sem dæmi um aquatintuseríu sem hann gerði er Caprichos eða “Kenjarnar’” þar sem lýst er hinum ýmsu mannlegu löstum eða kenjum og framtíðarsýnin sem kemur þar fram er ekki mjög björt.
Ýtarefni um grafík:
- Grove Art Online, www.groveart.com
- Kleiner, Mamiya og Tansey, 2001, Gardner’s Art through the ages. Harcourt College Publishers, New York.
- Guðbergur Bergsson túlkar, 1998. Kenjarnar – Los Caprichos-. Forlagið, Reykjavík.