Misjafnt er hvað fólk leggur í merkingu lita og forma í listaverkum en gaman er að velta því fyrir sér hvort hægt er að lesa meira út út verkum við nánari eftirgrennslan. Yfirleitt er litum skipt í þrjá grunnliti og þá sem þeir blandast í: Grunnlitirnir eru þrír, blár rauður og gulur. Svartur og hvítur eru kallaðir litlausir. Grunnlitirnir þrír blandast saman í fjólubláan, grænan og appelsínugulan. Stundum er talað um kalda og heita liti og þá er yfirleitt sagt að þeir litir sem eru á gulum og rauðum enda litaskalans séu heitir en kaldir þeir sem eru í bláa endanum.
Langflestir sjá og upplifa liti á mjög persónulegan hátt og eiga margir sér til dæmis uppáhalds lit eða liti.
Í vestrænu samfélagi er venja fyrir því að rautt þýði stopp og grænt að í lagi sé að halda áfram. Fyrr á öldum, sérstaklega í tenglsum við kristna list fengu litir alveg sérstaka þýðingu sem gaman getur verið að hugsa um. Svart þýddi yfirleitt dauða og undirheima. Á meðan hvítt var tákn fyrir sakleysi og hreint líferni sem og upprisu. Blár hefur í gegnum tíðina verið táknlitur Maríu meyjar og táknar traust og trú. Fyrr á tíðum var blár jafn dýr og blaðgull, svo sjaldgæft var efnið Lapiz Lazuli sem myndaði þennan lit. Rauður er litur tilfinninga, ástríðu og blóðhita og er þetta því passandi litur stríðsguðsins Mars. Þessi litur er einnig eitt einkenna Maríu Magdalenu. Gulur er viðkvæmur litur. Ef til vill hefur hann þess vegna verið litur Júdasar. ‘Júdasar-liturinn’ er þó oftast aðeins blandaður og er þá merking fyrir afbrýðissemi. Í hreinum gulum er Lykla-Pétur stundum sýndur því að sá litur þýðir sannleikinn. Grænn er jarðneskur litur og táknar sigur lífs yfir dauða, þetta er litur Venusar og Jóhannesar skírara. Grænn er talinn hafa róandi áhrif á fólk og eru spítalastofur stundum málaðar fölgrænar. Fjólublár er litur guðs eða yfirvaldsins. Það er einnig litur sorgar og er notaður í kirkjum á aðventunni og á föstunni.
Ýtarefni um liti og merkingar þeirra:
- Lise Gotfredsen, 2001, Billedets formsprog. Gads forlag, Kaupmannahöfn.
- George Ferguson, 1954, Signs & Symbols in Christian art. Oxford University Press, London.