Grunnur í allri gerð keramiks er leir. Leirinn getur verið afar misjafn, hann hefur misjafna eiginleika og fær mismunandi áferð eftir brennslu. Hlutfall efna í leir sem notaður er í keramik er nokkurn vegin það sama og er í jarðarskorpunni, þ.e. tinnusteinn um 60%, ál um 15-20% og járn um 7 %. Vatn og magnesíum, kalsíum, sódíum og pótassíum fylla upp það sem á vantar.
Mikilvægt er að leirinn sem er notaður sé auðmótanlegur og nógu stífur til að hann haldist í því formi sem hann er í. Leir er skipt upp í tvær tegundir eftir efnasamsetningu hans, primary (hreinn) og secondary (blandaður) leir.
Frum eða primary (hreinn) eru þær leirtegundir sem ekki hafa blandast öðrum efnum og eru þar með fremur hreinar af járni og lífrænum leifum. Þessar tegundir eru ekki mjög auðmótanlegar og eru yfirleitt ljósar þegar þær eru brenndar. Það þarf mjög hátt hitastig til að brenna þessar tegundir og þessvegna er bætt í leirinn efnum til að lækka brennslustig og auka sveigjuna.
Secondary (blandaður) leir eru tegundir leir sem blandast hafa öðrum efnum og færst frá upprunastað sínum. Þær hafa meiri möguleika á mótun en óblandaði/hreini leirinn. Blandaður leir verður yfirleitt brún- eða rauðleitur þegar hann er brenndur.
Bæði hreinn og blandaður leir eru grunnefni í þeim leir sem síðan er notaður í keramik. Vatn er notað við að mala og blanda leirinn þannig að hægt sé að nota hann seinna meir. Leirinn er brenndur við mismunandi háan hita, allt frá 800 gráðum upp í 1300 gráður á celsíus og fer það eftir hvernig hann er blandaður. Postulínsleir þarf hæstan hita í brennslunni en steinleir þarf lægstan.
Ýmsar leiðir eru til við að forma leirinn. Sú einfaldasta er að rúlla og klípa í hann með höndunum. Einnig er hægt að nota hjól sem snýst í hringi þar sem hægt er að útbúa skál eða vasa með því að byggja upp veggi jafnt og þétt á meðan hjólið snýst með leirklumpinn. Þegar kemur að brennslu og skreytingu á hlutnum þarf stundum að brenna hann tvisvar. Fyrst til að herða hann og síðan til að bræða glerunginn á.
Hægt er að skreyta leir á ýmsan máta bæði með því að nota hendur og tæki við að gera ýmis munstur í yfirborð hlutarins. Einnig er er hægt að lita gripina undir glerunginn, og fer þá allt eftir því hvernig brennsla fer fram, hvernig litur kemur síðan út. Kopar getur til dæmis orðið að grænum, rauðum eða túrkísbláum. Það fer allt eftir því súrefnismagni sem kemst að hlutnum við brennslu.
Glerungurinn sem kemur oftast ofan á litinn getur verið af margvíslegu tagi. Ef keramik hefur glerung er það yfirleitt vatnshelt, þeir hlutir sem hafa lægst brennsluhitastig verða að hafa glerung á sér til að vera vatnsheldir.
Glerungstegundir eru nokkrar og hafa þær mismunandi hátt brennslustig og lit, sá algengasti er glær og kallast blýglerungur. Auðvelt er að stjórna þeim glerung og þarf að brenna hann við lágan hita. Postulínsglerungur er úr feldspathik og þarf jafn hátt brennslustig og postulínið þannig að hægt er að brenna bæði í einu.
Keramik sker sig frá málun eða grafík að því leyti að mjög oft er það nytjalist sem er gerð í því. Nytjalist eru nytjahlutir sem ekki eru fjöldaframleiddir t.d. kertastjakar eða skálar. Sem dæmi um nútimalistamann sem nýtir sér keramik sem listform er Grayson Perry sem hlaut verðlaun fyrir sína sérstæðu vasa/krukkur og skreytt eru óhugnanlegum myndum. Stundum getur verið erfitt að sjá hvort um er að ræða nytjahlut eða skúlptúr í nytjalist og hafa ýmsir listamenn leikið sér með þennan vafa og er jafnvel hægt að nefna Koggu í því samhengi.
Ýtarefni um keramik: Grove Art Online: www.groveart.com.
Kleiner, Mamiya og Tansey, 2001, Gardner’s Art through the ages. Harcourt College Publishers, New York.