Daniel Hopfer (ca. 1470-1536) frá Augsburg þróaði þessa tegund grafíkur. Hann hafði unnið við að skreyta brynjur þar sem sýra var notuð og hóf að nota aðferðina við að búa til myndir fyrir prent/pappír. Aðferðin er fólgin í því að koparplatan er í upphafi þakin vaxi eða sýruþolnu lakki. Síðan er myndin teiknuð með nál í gegn um efnið þannig að yfirborð plötunnar er einungis bert í línum myndarinnar. Því næst er platan sett á kaf í sýru í einhvern tíma og því lengur sem sýran fær að virka, þeim mun dýpri og dekkri verða línurnar á sjálfri myndinni. Hægt er að stjórna skuggum með því að hylja hluta af myndinni með lakki og láta sýruna éta upp meira af því sem er skilið eftir. Þegar þessu ferli er lokið er vaxið eða lakkið þvegið af og blek sett á. Þar á eftir er hafist handa við að nudda með dagblaðapappír eða klút þar til blekið liggur bara í línunum sem sýran skildi eftir.
Í ætingu er hægt að vinna meira með frjálsari teikningu og leikandi línur en í þurrnálinni. Myndirnar geta orðið skissulegri því að auðveldara er að teikna í gegnum lakkið en beint á koparplötuna. Æting náði hátindi sínum með Rembrandt á 17.öld í Hollandi. Ef bornar eru saman myndir Albrecht Dürers og Rembrandts sést vel munurinn á þurrnál og ætingu. Á 20.öld varð æting vinsæl aftur hjá listamönnum. Það má til gamans geta að Picasso gerði ætingar alla sína ævi og var sagður nokkuð fær í þeim.